Í gær var hafist handa við að sótthreinsa stóran hluta nokkurra borga í Hubei-héraði í Kína, þar á meðal Wuhan. Um er að ræða forvarnaraðgerð sem er ætlað að hemja frekari útbreiðslu Wuhan-kórónaveirunnar.
Um helgina bárust fregnir af því að kínversk stjórnvöld ætli sér að verja tíu milljörðum Bandaríkjadala, eða hátt í 1.300 milljörðum íslenskra króna, í baráttu gegn veirunni.
Greint hefur frá því í kínverskum fjölmiðlum að frá og með gærdeginum verði ráðist í allsherjar sótthreinsiaðgerðir í Wuhan tvisvar á dag. Verður sjónum þá sérstaklega beint að spítölum, mörkuðum, íbúðahverfum, almenningsalernum og annarri hreinlætisaðstöðu.
Sjá einnig: Tvö ný sýni vegna Wuhan-veirunnar reyndust neikvæð
AP-fréttastofan hefur það eftir kínverska ríkissjónvarpinu að aðgerðirnar muni ná til yfir þrjú hundruð íbúðahverfa í nágrannaborginni Jingzhou og þrjú þúsund hektara almenningssvæðis.
Þá spreyjuðu fjórir bílar meira en hundrað tonnum af sótthreinsiefni að næturlagi yfir aðalgötur og almenningssvæði í borginni Shiyan.
Full-front disinfection work has started in #Wuhan, an effort to contain the spread of #coronavirus pic.twitter.com/E3Vg8XcHTP
— People's Daily, China (@PDChina) February 10, 2020
Wuhan-kórónaveiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV eða Nýja kórónaveiran.
Veiran sem er talin eiga upptök sín á markaði í Wuhan hefur dreifst til hátt í þrjátíu landa og hafa yfir fjörutíu þúsund manns smitast af veirunni, langflestir á meginlandi Kína.
Sjá einnig: Faraldurinn getur geisað mánuðum saman
Rétt yfir níu hundruð hafa nú látist vegna veirunnar, eins nær allir á meginlandi Kína. Sérfræðingar hafa þó bent á að dánarhlutfall fólks sem sýkist af veirunni sé svipað og þeirra sem fái hina árlegu inflúensu og jafnvel lægra.
Samkvæmt áhættumati fyrir veiruna sem framkvæmt er af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins er hættan á slæmum faraldri í löndum Evrópu talin lítil.