Erlent

Undir­búningur á­rásarinnar stóð yfir í marga mánuði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Feðgarnir yfirgefa íbúðina þar sem þeir höfðust við fyrir árásina. Talið er að Naveed haldi þarna á skotvopnunum sem notuð voru í árásinni.
Feðgarnir yfirgefa íbúðina þar sem þeir höfðust við fyrir árásina. Talið er að Naveed haldi þarna á skotvopnunum sem notuð voru í árásinni. Lögreglan í Nýju Suður Wales

Lögregluyfirvöld í Ástralíu telja að skipulagning hryðjuverkaárásarinnar á Bondi-strönd hafi staðið yfir í marga mánuði. Þá hafi feðgarnir Naveed Akram, 24 ára, og Sajid Akram, 50 ára, búið til myndskeið í anda Ríki íslam, æft sig í notkun skotvopna og sprengjusmíðum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í gögnum sem lögð hafa verið fram fyrir dómstólum í málinu gegn Naveed en Sajid lést af völdum skotsára. Í þeim segir einnig að feðgarnir hafi búið til þrjár rörasprengjur og eina „tennisboltasprengju“ og kastað þeim þegar árásin hófst. Þær hafi hins vegar ekki sprungið.

Samkvæmt lögreglu fannst myndskeiðið á síma Naveed en það sýnir hann lesa kafla úr Kóraninum, vopnaður fjórum skotvopnum. Þá eru hann og faðir hans sagðir hafa lýst yfir ástæðum sínum fyrir því að ráðast á trúarhátíð gyðinga á ströndinni, þar sem þeir fordæma meðal annars framgöngu „síonista“.

Naveed æfir sig að skjóta af byssu.Lögreglan í Nýju Suður Wales

Á öðru myndskeiði sjást feðgarnir æfa sig í að skjóta af vopnum sínum.

Samkvæmt lögreglu taldi móðir Naveed að feðgarnir væru í fríi í suðurhluta Nýju Suður Wales. Hann er sagður hafa hringt í mömmu sína á hverjum morgni, úr almenningssíma, og sagt henni frá því hvað þeir hygðust gera þann daginn.

Fimmtán létust í árásinni á Bondi-strönd, þeirra á meðal tíu ára stúlka. Alls voru 42 fluttir á sjúkrahús, margir í alvarlegu ástandi. Naveed hefur verið ákærður fyrir fimmtán morð og fjörtíu morðtilraunir.

Hann var sjálfur fluttur á sjúkrahús eftir árásina en hefur verið færður í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×