Búið er að aflýsa tugum flugferða til og frá landinu vegna óveðursins sem nú gengur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er þó allt flug á áætlun seinni partinn í dag þegar reiknað er með að veður hafi gengið niður.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugferðum Icelandair frá Bandaríkjunum og Kanada á leið til landsins hafi verið seinkað í dag og sé gert ráð fyrir að sjö vélar lendi á Keflavíkurflugvelli um klukkan 15 í dag.
Aflýsti 22 flugferðum
Icelandair aflýsti á miðvikudaginn 22 brottförum til og frá Evrópu sem fyrirhugaðar voru í dag og hafði það áhrif á um átta þúsund farþega.
Ásdís Ýr segir að til að bregðast við því hafi flugferðum verið fjölgað í gær og svo hafi verið haft samband við farþega og reynt að leysa úr málum.

Ekkert innanlandsflug
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir að öllu innanlandsflugi félagsins hafi verið aflýst í dag. Hann segir að þó að betur eigi eftir að fara yfir málin geri hann ráð fyrir að allt flug verði á áætlun á morgun. Er ljóst að raskanir dagsins í dag hafi haft áhrif á nokkur hundruð viðskiptavini, en alls áttu milli átta og níu hundruð farþegar bókað flug hjá Air Iceland Connect í dag.
Sjá einnig: Óveðursvaktin: Illviðri og foktjón víða um land
Flugfélagið Ernir hefur sömuleiðis aflýst sínum ferðum í dag.
Vindstyrkur vel yfir viðmiðunarmörk
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að ljóst megi vera að óveðrið hafi áhrif á allar flugferðir á landinu í dag.
„Vindhraðinn hefur farið upp í 75 hnúta í verstu hviðum, sem er um 40 metrar á sekúndu. Til viðmiðunar má nefna að það sé 25 hnútum yfir viðmiðunarmörk þegar kemur að notkun landganga.
En við hvetjum fólk til að fylgjast með á vefsíðunni okkar, en það er svo flugfélaganna að ákveða út frá aðstæðum hvenær flogið er,“ segir Guðjón.