Fyrstu farþegunum hefur verið hleypt í land úr skemmtiferðaskipinu Diamond Princess í Japan. Fólkinu hefur verið haldið um borð í sóttkví í tvær vikur en minnst 542 farþegar og áhafnarmeðlimir, af um 3.700, eru sýktir af Covid-19 kórónaveirunni. Yfirvöld Bandaríkjanna höfðu þó flutt rúmlega 300 manns frá skipinu og til Bandaríkjanna um síðustu helgi.
Um borð í skemmtiferðaskipinu er stærsta þyrping sýktra fyrir utan landamæri Kína.
Einungis farþegar sem greinast ekki með veiruna og sína ekki einkenni fá að yfirgefa skipið að svo stöddu. Aðrir þurfa að halda þar til áfram.
Þó verið sé að sleppa fólkinu úr skemmtiferðaskipinu er útlit fyrir að raunum þeirra sé ekki lokið enn. Þeir farþegar sem fluttir voru til Bandaríkjanna þurfa til að mynda að verja öðrum tveimur vikum í sóttkví og önnur ríki stefna einnig á sambærilegar aðgerðir. Farþegar Diamond Princess komu frá um 50 löndum.
Óttast er að farþegarnir gætu flutt veiruna víða um heim.
Skemmtiferðaskipið var sett í sóttkví í byrjun mánaðarins þegar maður um borð greindist með Covid-19. Í fyrstu var farþegum ekki leyft að yfirgefa káetur sínar en því var svo breytt. Þrátt fyrir sóttkví fjölgaði sýkingum þó hratt um borð.