Innlent

Æfðu viðbrögð við snjóflóðum í Bláfjöllum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá æfingu björgunarsveita í Bláfjöllum í dag.
Frá æfingu björgunarsveita í Bláfjöllum í dag. Vísir/Frikki

Stór snjóflóðaleitaræfing hófst í Bláfjöllum í morgun, þar sem hundar og fjöldi fólks koma við sögu. Skipuleggjandi æfingarinnar segir snjóflóð síðustu vikna sýna fram á mikilvægi þess að björgunarsveitir séu ávallt viðbúnar, og kunni réttu handtökin.

„Við ætlum að hafa hérna stóra snjóflóðaleitaræfingu. Það eru björgunarsveitir af Reykjavíkursvæðinu og Bláfjalla-skíðasvæðinu, sem standa að þessari æfingu,“ segir Þóra Jóhanna Jónasdóttir, meðlimur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og einn skipuleggjenda æfingarinnar.

Útkall vegna snjóflóðs var sent út klukkan 10 í morgun og þegar björgunarsveitarfólk mætti á vettvang var búið að grafa fólk og dúkkur í fönn, sem koma þurfti í skjól.

„Mikilvægasta viðbragðið í snjóflóðum, sérstaklega ef fólk er ekki með ýlur, það eru snjóflóðaleitarhundar sem að markera á fólk. Það er eini möguleikinn að finna það fljótt en annars þarf að notast við stangaleit sem er mjög seinleg,“ segir Þóra.

Þóra segir að æfingin hafi verið sett á dagskrá í haust. Snjóflóð síðustu vikna, bæði á Vestfjörðum og í Esjuhlíðum á miðvikudag, þar sem ungur maður fórst, hafi síðan undirstrikað mikilvægi æfinga sem þessara.

„Vissulega vorum við aðeins hugsi hvort við ættum að halda áfram í ljósi mjög sorglegra atburða síðustu daga en það vilja allir vera eins vel æfðir og klárir og kostur er á. Þannig að við keyrum æfinguna í anda þess.“ segir Þóra Jóhanna Jónasdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×