Nokkrir særðust lítillega eftir að sprenging varð í fjölbýlishúsi í sænsku borginni Norrköping í nótt. Lögregla í borginni staðfestir að sprengihleðsla hafi fundist í stigagangi hússins og er talið að málið tengist átökum glæpagengja.
Lögreglu barst tilkynning um sprenginguna í hverfinu Hageby, suður af miðborg Norrköping, um klukkan sex í morgun að staðartíma. Varð sprengingin fyrir utan íbúð á annarri hæð hússins, en tilkynnt var um að fjöldi glugga hafi eyðilagst.
SVT segir frá því að ellefu manns í húsinu hafi verið fluttir úr húsinu. Nokkrir þurftu að leita aðhlynningar hjá heilbrigðisstarfsmönnum en enginn á að hafa þurft að fara á sjúkrahús.
Rannsakað sem tilraun til morðs
Eldur kom upp í stigaganginum en slökkviliði tókst fljótt að slökkva hann. Lögregla rannsakar málið sem tilraun til morðs og hafa sprengjusérfræðingar lögreglunnar verið sendir á vettvang.
Norrköping er að finna um 160 kílómetrum suður af höfuðborginni Stokkhólmi, en hverfið Hageby var í sumar fjarlægt af lista lögreglunnar yfir „viðkvæm svæði“ þar sem félagsleg vandamál eru sérstaklega mikil.
Mikill fjöldi sprengjuárása
Mikið hefur verið um sprengjuárásir í Stokkhólmi og nágrenni síðustu vikur og mánuði. Er talið að þær tengist flestallar átökum gengja í landinu. Þannig var tilkynnt um tvær sprengingar í Hugby og Kista í vesturhluta Stokkhólms aðfararnótt gærdagsins. Þar særðist einn lítillega að sögn lögreglu.
Fyrir rúmri viku var tilkynnt um einhverja öflugustu sprenginguna til þessa á Östermalm í Stokkhólmi. Þar særðist enginn en sprengingin olli mikilli eyðileggingu.
Tilkynnt var um 257 sprengingar í Svíþjóð á síðasta ári, en á árinu 2018 voru þær 162.