Andrés prins, hertoginn af York, hefur reynst afar „ósamvinnuþýður“ í rannsókn bandarískra yfirvalda á barnaníðingnum og viðskiptamanninum Jeffrey Epstein. Þetta hafa erlendir fjölmiðlar eftir saksóknara sem hefur yfirumsjón með rannsókninni.
Andrés prins, sem var góðvinur Epstein um árabil, er í fréttum BBC af málinu sagður hafa sýnt lítinn sem engan samstarfsvilja með saksóknurum og alríkislögreglufulltrúum sem fara með rannsóknina.
Bæði FBI (alríkislögregla Bandaríkjanna) og ákæruyfirvöld í Bandaríkjunum hafa sett sig í samband við lögmenn prinsins, til þess að ná af honum tali. Það virðist þó ekki hafa gengið.
Geoffrey Berman ríkissaksóknari sagði á blaðamannafundi, fyrir utan fyrrum heimili Epstein í dag, að til þessa dags hafi samstarfsvilji Andrésar prins verið enginn.
Andrés hafði áður lýst því yfir að hann væri tilbúinn að veita lögreglu aðstoð við rannsóknina á Epstein, sem nú er látinn.
Jeffrey Epstein var handtekinn í júlí síðastliðinn, en grunur lék á að hann hefði gerst sekur um mansal, kynferðisbrot gegn börnum og vörslu barnakláms.
Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum á Manhattan í New York-borg í ágúst síðastliðnum, þrátt fyrir að hafa átt að vera undir ströngu eftirliti, einmitt vegna þess að talin var hætta á að hann gæti reynt að svipta sig lífi.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.
