Svali Björgvinsson segir að frammistaða Örlygs Arons Sturlusonar heitins í leik Njarðvíkur og Keflavíkur í desember 1999 sé sú besta sem hann hafi séð frá íslenskum leikmanni.
Í fyrradag, 16. janúar, voru 20 ár síðan Örlygur lést. Til minningar um hann var Stöð 2 Sport með heilmikla dagskrá í kringum leik Njarðvíkur og Keflavíkur.
Meðal annars var leikur Njarðvíkur og Keflavíkur frá 1999 sýndur. Það var einn af síðustu leikjunum sem Örlygur spilaði.
Svali Björgvinsson og Guðjón Guðmundsson lýstu leiknum 1999 og einnig leiknum á fimmtudaginn. Þar rifjaði Svali leikinn 1999 upp.
„Í fyrri hálfleiknum var Ölli svo góður að það var einstakt,“ sagði Svali. „Hann spilaði besta hálfleik sem ég hef Íslending spila fyrr og síðar.“
Í umræddum leik skoraði Ölli 18 stig og gaf ellefu stoðsendingar. Njarðvíkingar unnu leikinn, 77-74.