Yfirvöld í Japan hafa gefið það út að þau ætli að herða verklag í innflytjendamálum eftir ótrúlegan flótta Carlos Ghosn, fyrrverandi yfirmanns Nissan og renault, frá landinu. Ghosn náði að flýja til Líbanon rétt fyrir áramót eftir að honum hafði verið sleppt úr haldi gegn tryggingu í apríl gegn því skilyrði að hann myndi ekki fara úr landi.
Þetta eru fyrstu viðbrögð yfirvalda við flóttanum en Ghosn beið réttarhalda í Japan.
Ghosn hafði verið handtekinn á síðasta ári grunaður um að hafa kerfisbundið vantalið fram tekjur sínar til eftirlitsaðila og misnotað eignir fyrirtækisins til eigin hagsmuna. Hann er sagður hafa flúið vegna þess að hann taldi sig ekki fá sanngjörn réttarhöld í Japan.
Engin gögn sýna fram á ferðalag frá Japan
Interpol hefur gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Ghosn þar sem segir að hann hafi komið ólöglega til landsins. Enn er óljóst hvort Ghosn verði kallaður til yfirheyrslu í Líbanon en ríkisborgarar landsins eru ekki framseldir annarra ríkja. Ghosn er með franskan, líbanskan og brasilískan ríkisborgararétt.
Réttarhöld í málinu áttu að hefjast eftir nokkra mánuði. Engu að síður tókst Ghosn að flýja og er hann sagður hafa yfirgefið land með einkaþotu og á hann að hafa falið sig í hljóðfæratösku. Eiginkona Ghosn, Carole, segir þetta þó ekki vera rétt.
Sjá einnig: Eiginkona Carlos Ghosn segir það lygi að hann hafi flúið land í hljóðfæratösku
Ghosn komst frá Japan á frönsku vegabréfi en dómstóll í Japan hafði leyft honum að halda öðru af tveimur frönskum vegabréfum sínum. Vegabréfið átti að vera geymt í læstum skáp sem einungis lögmenn hans myndu hafa lykil að.
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japan, sagði flótta Ghosn vera ólöglegan og það væri miður að hann hafi náð að flýja land. Engin gögn væru til sem sýndu fram á að hann hafi yfirgefið landið en hún sagðist heita því að málið yrði rannsakað til hlítar.