Vegagerðin hefur lokað vegunum um Hellisheiði og Þrengsli vegna óveðursins sem nú gengur yfir landið. Þá er einnig búið að loka veginum um Öxnadalsheiði.
Áður hafði vegunum um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Klettháls og Víkurskarð verið lokað auk vegarins um Þverárfjall.
Ökumenn í vandræðum á Hellisheiði hafa óskað eftir aðstoð björgunarsveita samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg. Þá voru hátt í tuttugu bílar á Holtavörðuheiði þegar heiðinni var lokað síðdegis.
Ökumenn þeirra lentu í vandræðum vegna ófærðar og voru tveir hópar af björgunarsveitum, alls fimmtán manns á fjórum bílum, kallaðir út til að aðstoða fólkið, annars vegar úr björgunarsveitinni Húna á Hvammstanga og hins vegar úr björgunarsveitinni Heiðar í Borgarfirði.
Veðrið hefur einnig sett flugsamgöngur úr skorðum. Þannig aflýstu flugfélögin Icelandair, Easy Jet og Lufthans öllu flugi sínu til og frá Keflavíkurflugvelli síðdegis í dag. Icelandair ákvað jafnframt að aflýsa flugi sínu í fyrramálið.
Flug Norwegian til Tenerife sem fara átti frá Keflavík upp úr klukkan 15:30 í dag hefur verið frestað til klukkan 20.
Að því er fram kemur í frétt RÚV þurftu farþegar sem komu með þeirri vél frá Tenerife í dag þurftu að bíða í um tvo klukkutíma í vélinni þar sem ekki var hægt að hleypa þeim frá borði vegna hvassviðris.
Þá er flug Wizz Air til Gdansk í kvöld einnig á áætlun samkvæmt vef Keflavíkurflugvallar.
Fréttin var uppfærð klukkan 18:34.
Loka Hellisheiði, Þrengslum og Öxnadalsheiði vegna óveðurs

Tengdar fréttir

Vetrarfærð í flestum landshlutum og vegum lokað vegna veðurs
Vetrarfærð er í flestum landshlutum og leiðinleg veðurspá seinni part dags um land allt.

Stormur og hríð fylgja „djúpri og víðáttumikilli lægð“
Gular viðvaranir eru í gildi í öllum landshlutum og aftur er von á stormi á fimmtudag.

Ökumenn í vandræðum á Holtavörðuheiði
Ákveðið var að loka Holtavörðuheiðinni nú síðdegis.