Körfubolti

Wade fær þriggja daga hátíð þegar Miami Heat hengir upp treyjuna hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fékk áritaða treyju frá Dwyane Wade á lokatímabili Wade í NBA.
LeBron James fékk áritaða treyju frá Dwyane Wade á lokatímabili Wade í NBA. Getty/Harry How

NBA körfuboltafélagið Miami Heat ætlar ekki að fara hefðbundna leið þegar treyja Dwyane Wade verður hengd upp í rjáfur á American Airlines Arena.

Dwyane Wade gerði mjög mikið fyrir félagið á sínum ferli og forráðamenn Miami Heat vilja hylla hann með mikilli hátíð.

Dwyane Wade spilaði þrettán tímabil með Miami Heat og varð þrisvar sinnum NBA meistari með liðinu. Hann á líka mjög mikið af alls kyns félagsmetum hjá Miami Heat enda frábær leikmaður sem spilaði með Miami Heat í langan tíma.

Venjulega fá leikmenn eitt kvöld þar sem treyju þeirra er hengd upp með viðhöfn en það var ekki nóg að mati forráðamanna Miami Heat.



Treyjuhátið Dwyane Wade mun standa yfir í þrjá daga eða frá 21. til 23. febrúar næstkomandi.

Þessir þrír dagar eru táknrænir fyrir Dwyane Wade og Miami Heat því hann spilaði alltaf í treyju númer þrjú og vann einnig þrjá meistaratitla með félaginu.

En hvað gerist á þessum þremur dögum?

Á föstudeginum verður sérstök hátíðarstund fyrir útvalda aðila þar sem verður minnst þess sem Dwyane Wade gerði með Miami Heat og hvaða áhirf hann hafði á Miami borg. Þeir sem mega mæta þar eru ársmiðahafar, þeir sem eiga lúxussæti og svo styrktaraðilar félagsins.

Á laugardeginum verður síðan hefðbundin athöfn í tengslum við leik Miami Heat og Cleveland Cavaliers þar sem treyja Dwyane Wade fer upp í rjáfur.

Á sunnudeginum verður síðan sýnd mynd í American Airlines Arena en þessi mynd er byggð á ævi Dwyane Wade. Tekjur af sölu miða á myndina fara til góðgerðasamtaka Dwyane Wade.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×