Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, ber barn undir belti. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni nú síðdegis eftir að Þórhildur og Rafał Orpel unnusti hennar komu úr hinni svokölluðu 12 vikna skoðun.
Þórhildur segir von á barninu í febrúar og að allt bendi til þess að „litli Píratinn“ sé við hestaheilsu.
„Við hjónaleysin erum himinlifandi með bumbubúann og hlökkum til að taka að okkur nýtt hlutverk í lífinu saman,“ skrifar Þórhildur en þau Rafał fögnuðu tveggja ára sambandsafmæli fyrr í sumar. Eins og skrif Þórhildar bera með sér er þetta fyrsta barn þeirra tveggja, en þau trúlofuðust hvoru öðru á aðfangadag í fyrra.