Íslenski boltinn

KSÍ gefur sér frest til 1. desember til að klára Íslandsmótið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild kvenna í sumar.
Úr leik í Pepsi Max-deild kvenna í sumar. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að Knattspyrnusambandið gefi sér frest til 1. desember til að klára Íslandsmótið í fótbolta.

Leikjum í meistaraflokki og 2. og 3. flokki karla og kvenna hefur verið frestað til og með 13. ágúst eftir að heilbrigðisráðuneytið hafnaði beiðni KSÍ um undanþágu til knattspyrnuiðkunar.

Þrátt fyrir tafir á Íslandsmótinu er Guðni bjartsýnn á að hægt verði að klára það. Hann segir að KSÍ sé búið að setja sér tímamörk í þeim efnum.

„Við höfum gefið okkur til 1. desember að klára mótið. Það eru því enn tæpir fjórir mánuðir eftir þannig við erum með nógan tíma þannig séð,“ sagði Guðni í samtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur.

„En það er augljóst að við getum ekki beðið í margar vikur. En við munum gera hvað við getum. Við höfum komið með tillögur sem gætu gert það mögulegt að spila og æfa fótbolta. En þetta veldur mikið á því hvernig faraldurinn verður og hvernig við tökumst á við þetta saman. Við höfum hvatt alla okkar iðkendur til að gæta að sóttvörnum og gerum okkar til að ná að stöðva faraldurinn.“

Íslandsmótið í fótbolta á að klárast í október. Lokaumferðin í Pepsi Max-deild kvenna er á dagskrá 17. október og lokaumferðin í Pepsi Max-deild karla 31. október.

Nánar verður rætt við Guðna Bergssonar í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×