Innlent

Anna Kol­brún þarf að greiða danska inn­heimtu­fyrir­tækinu

Sylvía Hall skrifar
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Vísir/Getty

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, þarf að greiða danska innheimtufyrirtækinu Lowell Danmark 68.561 danska krónu vegna láns sem hún tók hjá danska bankanum Fionia Bank og fór í vanskil. Upphæðin samsvarar tæplega einni og hálfri milljón íslenskra króna en dómur féll í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku.

Fionia Bank fór í slitameðferð árið 2006, skömmu eftir að Anna Kolbrún gerði sátt við bankann um ákveðna fjárhæð. Bankinn var yfirtekinn af danska fjármálaeftirlitinu sem seldi hluta til Nordea bankans. Krafa Önnu var síðan yfirtekin af Lowell Danmark.

Lowell Danmark fór fram á að Anna Kolbrún myndi greiða 623.281 danskar krónur, eða rúmlega 13 milljónir íslenskra króna, vegna lánsins með 8,05 prósent ársvöxtum frá 12. desember 2016 að frádregnum 54.328 innborgunum. Dómurinn taldi ósannað að krafan sem fyrirtækið fékk framselda hafi numið hærri upphæð en 68.561 danskri krónu.

Vísir greindi frá málinu í mars og sagði Eiríkur Gunnsteinsson, verjandi Önnu Kolbrúnar, að það Anna Kolbrún hafi greitt samviskulega af láninu frá 2006 til byrjun árs 2009 og svo óreglulega til 2014. Eftir að krafan fór í innheimtu hafi verið ágreiningur um hana.

Lowell Danmark var gert að greiða Önnu Kolbrúnu 473.300 krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×