Heil umferð fór fram í 2. deild karla í fótbolta í kvöld.
Selfyssingar unnu Hauka 2-1 eftir að hafa verið manni færri í rúmar 60 mínútur og marki undir um tíma.
Guðmundur Tyrfingsson, leikmaður Selfoss, fékk að líta á rauða spjaldið á 29. mínútu og á 49. mínútu kom Tómas Leó Ásgeirsson Haukum yfir í 1-0. Ingvi Rafn Óskarsson jafnaði fyrir Selfoss á 53. mínútu og manni færri á erfiðum útivelli náðu Selfyssingar að kreista fram sigurmark. Það gerði markahrókurinn Hrvoje Tokic á 73. mínútu. Virkilega sterkur sigur hjá Selfoss.
Selfoss er eftir sigurinn í þriðja sæti með níu stig, jafnmörg stig og Haukar, en Haukar eru með einu marki meira í plús og eru í öðru sæti á markatölu.
Kórdrengir töpuðu sínum fyrstu stigum í deildinni þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Kára á Akranesi. Kórdrengir enn á toppnum með tíu stig eftir fjórar umferðir og hafa enn ekki fengið á sig mark í deildinni.
Þróttur Vogum vann sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar þeir unnu óvæntan útisigur á nágrönnum sínum í Njarðvík. Lokatölur 0-1 fyrir Þrótti, Viktor Smári Segatta með markið á 45. mínútu.
Á Húsavík kom Fjarðabyggð til baka og náði í stig eftir að hafa verið 2-0 undir gegn Völsungi. Lokatölur 2-2 en þetta var fyrsta stig Húsvíkinga í sumar.
KF vann nágrannaslaginn fyrir norðan gegn Dalvík/Reyni en leikið var á heimavelli Dalvíkur. Dalvík skoraði fyrsta markið, en síðan komu fjögur í röð frá KF áður en Dalvíkingar minnkuðu muninn. Lokatölur 2-4 fyrir KF.
ÍR gerði góða ferð suður með sjó þegar þeir sigruðu Víði frá Garði 3-0. ÍR-ingar komnir með sex stig líkt og Njarðvík og KF.