Innlent

Besta helgarveðrið fyrir norðan og í borginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Borgarbúar hafa notið blíðunnar í Nauthólsvík síðustu daga.
Borgarbúar hafa notið blíðunnar í Nauthólsvík síðustu daga. vísir/vilhelm

Fólk sem á leið um innsveitir Norðurlands í dag má búast við allt að 20 stiga hita á þeim slóðum. Hitinn annars staðar á landinu verður á bilinu 10 til 18 stig, helgarveðrið verður hvað best á norðanverðu landinu framanaf en búast má við brakandi blíðu á suðvesturhorninu á sunnudag.

Veðurstofan gerir ráð fyrir fremur hægri austlægri átt í dag en austanstrekkingi með suðurströndinni. Þá verði skýjað með köflum sunnan- og vestanlands, stöku skúrir á þeim slóðum og hiti 10 til 16 stig.

Þá verði að mestu skýjað og sums staðar þokubakkar austantil á landinu og hiti 7 til 12 stig, en léttskýjað á Norðurlandi og hiti að 20 stigum í innsveitum sem fyrr segir.

Gert er ráð fyrir svipuðu veðri á morgun, laugardag. Þó muni að líkindum kólna lítillega með suðurströndinni seinni partinn. Norðaustanátt á sunnudag og léttir til um sunnan- og vestanlands með 12 til 17 stig hita, en skýjað um landið norðaustanvert og hiti 6 til 11 stig á þeim slóðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Austlæg eða breytileg átt 5-10 m/s. Sums staðar súld austantil á landinu, bjart með köflum norðanlands og dálitlar skúrir á Suður- og Vesturlandi. Hiti 10 til 16 stig, en svalara með austurströndinni.

Á sunnudag:

Norðaustan 5-10 en 10-15 með austurströndinni. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en sums staðar dálitlar skúrir síðdegis. Hiti 12 til 17 stig. Skýjað um landið norðaustanvert með hita 6 til 11 stig.

Á mánudag:

Norðvestan 5-10 og lítlsháttar væta á Norður- og Austurlandi með hita 6 til 11 stig. Bjartviðri sunnan heiða og úrkomulítið, og hiti að 18 stigum yfir daginn.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir hæga breytilega átt. Skýjað með köflum og líkur á skúrum í flestum landshlutum, einkum síðdegis. Hiti 8 til 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×