Brendan Rodgers og lærisveinar í Leicester hafa verið í frjálsu falli síðan um áramót eftir frábæra byrjun á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni.
Þeir voru um margra vikna skeið í öðru sæti deildarinnar og eftir 16 umferðir voru þeir til að mynda með 14 stiga forskot á Manchester United sem var þá í fimmta sæti líkt og nú. Í dag er munurinn á liðunum 3 stig. Í síðustu 16 leikjum hafa Leicester einungis unnið fjóra leiki og haldi þeir áfram á sömu braut er erfitt að sjá þá halda í Meistaradeildarsæti.
Brendan Rodgers, þjálfari Leicester, er enn vongóður um að ná eða enda í einu af efstu fjórum sætunum og segir örlögin vera í þeirra höndum.
,,Hvernig við höfum spilað stærsta hluta tímabilsins hefur skilað okkur í þá sterku stöðu sem við erum í núna. Við höfum ekki verið upp á okkar besta um skeið núna en við erum enn með örlögin í okkar eigin höndum til að afreka það sem myndi vera draumur fyrir okkur, að enda í efstu fjórum sætunum. En við getum eingöngu náð því ef frammistaðan er góð,“ sagði Rodgers eftir tap gegn Everton í gær.
Í næstu umferð mætir Leicester Crystal Palace á heimavelli en þeir eiga eftir að keppa við Arsenal á útivelli og í síðustu umferð mótsins fá þeir Manchester United í heimsókn í leik sem gæti verið úrslitaleikur um Meistaradeildarsæti.