Enski boltinn

Solskjær í við­ræður við United

Valur Páll Eiríksson skrifar
Solskjær gæti tekið aftur við Manchester United.
Solskjær gæti tekið aftur við Manchester United. Charlie Crowhurst/Getty Images

Ole Gunnar Solskjær átti í dag viðræður við stjórnarmenn hjá Manchester United um að taka við liðinu tímabundið sem þjálfari.

The Athletic greinir frá. Portúgalanum Rúben Amorim var sagt upp sem þjálfara liðsins í gær eftir 14 mánuði við stjórnvölin. Leit stendur eftir að eftirmanni.

Solskjær sé á meðal annarra kosta sem United hefur sett sig í samband við. Áhersla sé lögð á að finna tímabundinn kost til að stýra liðinu út leiktíðina áður en framtíðarlausn liggi fyrir.

Solskjær er langlíklegastur þeirra kosta sem standa til boða, til að taka við liðinu út leiktíðina, samkvæmt breskum fjölmiðlum.

Darren Fletcher, fyrrum liðsfélagi Solskjær hjá United, og núverandi þjálfari unglingaliðs þess mun stýra því gegn Burnley á Turf Moor í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Þá má einnig vera að hann stýri liðinu í FA-bikarnum um komandi helgi.

Solskjær er sagður opinn fyrir því að taka við liðinu en hann á hús í Chesire, rétt utan Manchester-borgar, og hefur verið án starfs síðan honum var sagt upp hjá Besiktas í Tyrklandi í ágúst.

Solskjær er sagður líklegastur til að taka við. Hann tæki þá við í annað sinn en hann var einnig ráðinn þjálfari liðsins tímabundið eftir að José Mourinho var látinn taka poka sinn í desember 2018.

Solskjær var eftir það ráðinn varanlega vegna góðs árangurs og stýrði liðinu fram í nóvember 2021. Hann er eini þjálfarinn sem hefur afrekað það að stýra United í efstu fjögur sætin í ensku úrvalsdeildinni tvö ár í röð frá því að Sir Alex Ferguson hætti árið 2013.

Solskjær hefur einnig stýrt Molde í heimalandinu, í tvígang, og Cardiff City auk United og Besiktas, á sínum þjálfaraferli.

Hann var leikmaður Manchester United um árabil og spilaði yfir 200 leiki fyrir liðið. Hann skoraði frægt sigurmark í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 1999 sem tryggði United þrennu titla það tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×