Enski boltinn

Nevil­le segir United að hætta til­rauna­mennskunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim var aðeins með 38 prósent sigurhlutfall sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Ruben Amorim var aðeins með 38 prósent sigurhlutfall sem knattspyrnustjóri Manchester United. getty/Martin Rickett

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir félaginu að hætta tilraunamennskunni og ráða knattspyrnustjóra sem passar inn í hugmyndafræði þess.

Eftir fjórtán mánuði í starfi var Ruben Amorim rekinn frá United í gær.

Darren Fletcher tekur tímabundið við United og stýrir liðinu allavega í leiknum gegn Burnley annað kvöld. Talið er að United ætli að ráða stjóra út tímabilið og svo annan til framtíðar í sumar.

Neville segir að United megi ekki veðja á annan hest eins og Amorim.

„Tilraunamennskan verður að hætta,“ sagði Neville um stöðuna hjá United.

„Ég hef alltaf verið stoltur af því sem þetta félag er, með sóknarsinnaðan og spennandi fótbolta, nota unga leikmenn og skemmta stuðningsmönnunum. Þeir verða að taka áhættu og hafa hugrekki til að spila sóknarbolta. United er komið á þann stað að þeir þurfa stjóra sem passar inn í DNA félagsins.“

Eiga ekki breyta sér fyrir neinn

Neville segir að United ætti ekki að gefa afslátt af sínum gildum.

„Barcelona breytir sér ekki fyrir neinn og mér finnst að United eigi ekki heldur að gera það. Félagið verður að finna stjóra með reynslu sem vill spila hraðan og ákafan sóknarbolta,“ sagði Neville.

Ýmsir stjórar hafa verið orðaðir við United undanfarinn sólarhring, meðal annars Oliver Glasner, Enzo Maresca og Gareth Southgate.

Amorim skilur við United í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á síðasta tímabili endaði liðið í 15. sæti.

United sækir nýliða Burnley heim á morgun og á sunnudaginn á liðið svo bikarleik gegn Brighton á Old Trafford.


Tengdar fréttir

Draumaráðning Hjörvars sem brosir breitt eftir tíðindi dagsins

Portúgalinn Ruben Amorim var í dag rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United eftir fjórtán mánuði í starfi. Uppsögnin kemur íslenskum knattspyrnusérfræðingi ekki á óvart en Hjörvar Hafliðason hefur fylgst grannt með liði Manchester United í áratugi.

Sendi United Amorim sneið að skilnaði?

Manchester United greindi í morgun frá því að Ruben Amorim hefði verið látinn fara frá félaginu. Orðalagið í tilkynningu félagsins vekur athygli.

„Hef á til­finningunni að hann hafi talað af sér þarna“

Arnar Gunnlaugsson segir að Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi eflaust ígrundað vel og vandlega ummælin sem hann lét falla á blaðamannafundi í gær. Ummælin hafa vakið mikla athygli og spurningar um framtíð Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×