Það var mikil dramatík í Ólafsvík í gær er nafnaliðin Víkingur Reykjavík og heimamenn í Víkingi Ólafsvík mættust í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Heimamenn komust yfir með glæsilegu marki frá Gonzalo Zamorano skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en Víkingarnir jöfnuðu á fjórðu mínútu uppbótatíma með marki varamannsins Helga Guðjónssonar.
James Dale fékk að líta rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar en Reykjavíkur-Víkingar náðu ekki að koma inn marki fyrir lok framlengingarinnar. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.
Harley Willard klúðraði þriðja víti Ólsara en Brynjar Atli varði frá Loga Tómassyni í sömu umferð. Í sjöttu umferðinni klúðraði svo Daníel Snorri Guðlaugsson fyrir heimamenn og Viktor Örlygur Andrason tryggði Víkingum sigurinn.
Vítaspyrnukeppnina má sjá í heild sinni hér að neðan en Mjólkurbikarmörkin fara fram klukkan 20.00 í kvöld þar sem farið er yfir alla sextán leikina í 32-liða úrslitunum.