Kristín Hannesdóttir var á meðal þeirra farþega sem komu til landsins með fyrsta millilandafluginu sem lenti hér á landi eftir að skimun hófst á Keflavíkurflugvelli. Hún segist fegin að vera komin til Íslands, þar sem hún hafi ekki hitt börnin sín síðan á jólunum.
Fréttastofa náði tali af Kristínu í morgun þar sem hún var nýkomin út úr flugstöðinni. Þar sagðist hún hafa komið til landsins í gegn um London.
„Þar áður var ég í Bandaríkjunum og Argentínu, þar sem ég fékk Covid.“
Kristín segist hafa beðið færis á að komast til Íslands síðan í mars á þessu ári.
„Ég er ekki búin að sjá börnin mín síðan á jólunum, þannig að ég er mjög spennt að vera komin,“ segir Kristín sem segist ekki hafa leitast eftir því að koma til landsins með vöruflugi. Hún segir það þó mjög góða tilfinningu að vera komin heim.
„Ég alveg ógeðslega spennt,“ segir Kristín. Hún segir að það fyrsta sem hún geri þegar hún hitti börnin verði að knúsa þau og kyssa. Þá segist hún spennt fyrir því að þurfa ekki að vera með grímu og hanska öllum stundum.
Eins segir Kristín það hafa verið afar erfitt að vera svo lengi að heiman á þessum tímum.
„Ég er búin að vera í Bandaríkjunum þar sem voru mótmæli og óeirðir og ég er bara mjög spennt að vera komin heim.“