Dagsson.com hefur gefið út á Vimeo uppistandsmyndina „Son of the Day“ sem er 70 mínútna uppistands keyrsla Hugleiks Dagssonar á ensku. Myndina er bæði hægt að kaupa eða leigja í 48 klukkustundir. Myndin er í raun sýning sem samanstendur af því vinsælasta gríni sem Hugleikur hefur samið fyrir uppistand síðastliðin 10 ár.
„Hugleikur hefur nokkrum sinnum ferðast erlendis til að kynna heiminn fyrir íslensku gríni en 2019 fór hann í 18 borga túr með grínistanum Jonathan Duffy. Son of the Day var tekin upp í Q-teattri í Finnlandi undir lok uppistandsferðar hans um Evrópu í maí 2019. Uppselt var á allar sýningar og voru undirtektirnar ótrúlega góðar,“ segir Rakel Sævarsdóttir framleiðandi um myndina.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu fyrir myndina en vert að geta þess að það eru atriði í Son of the Day sem ekki eru við hæfi ungra barna.
Son of the Day from Dagsson.com on Vimeo.
Rakel Sævarsdóttir framleiddi myndina fyrir Dagsson.com. Leikstjóri Son of the Day er Árni Sveinsson, tónlistina samdi Þormóður Dagsson og sviðsmyndina hannaði Milja Aho. Kvikmyndatöku önnuðust Mikko Lehtonen, Pazzi Nuortimo, Tuomo von Pfaler, Eppu Kärki og Jukka Kurkikangas. Eftirvinnslu og litaleiðréttingu annaðist Jóhannes Tryggvason og hljóðhönnun er eftir Jóa B hjá Audioland.