Erlent

Biðja íbúa um að gefa heilbrigðisstarfsfólki regnkápur í stað hlífðarbúnaðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Borgarstjóri Osaka hefur beðið íbúa og forsvarsmenn fyrirtækja um hjálp vegna skorts á hlífðarbúnaði.
Borgarstjóri Osaka hefur beðið íbúa og forsvarsmenn fyrirtækja um hjálp vegna skorts á hlífðarbúnaði. EPA/FRANCK ROBICHON

Yfirvöld borgarinnar Osaka í Japan hafa kallað eftir því að forsvarsmenn verslana og íbúar gefi regnkápur sínar til heilbrigðisstarfsmanna. Það var gert vegna mikils skorts á hlífðarbúnaði þar sem læknar hafa klæðst ruslapokum. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, lýsti yfir neyðarástandi á sex svæðum í Japan í síðustu viku. Þar á meðal í Osaka.

Þrátt fyrir það hefur smituðum fjölgað tiltölulega hratt í Japan og hafa nú minnst 8.200 smitast og 166 dáið. Í Osaka hafa því 900 smitast af nýju kórónuveirunni.

Ichiro Matsui, borgarstjóri Osaka, sagði frá því í gær að sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir skorti hlífðarbúnað. Kallaði hann eftir því að íbúar gæfu borginni regnkápur og sagði að þær mættu vera í öllum litum, samkvæmt frétt Reuters.

Hann sagði einnig að ekki væri hægt að sigra nýju kórónuveiruna án heilbrigðisstarfsfólks. Því væri nauðsynlegt að tryggja að þau sýktust ekki.

Regnkápurnar mega ekki vera notaðar og er beiðninni því að mestu beint til eiganda verslana. Matsui tók þó fram að íbúar megi einnig gefa sínar regnkápur sem þeir hafi aldrei notað.

Japan Times segir þennan skort eiga við um allt landið. Hann verði sífellt alvarlegri en yfirvöld biðluðu til forsvarsmanna fyrirtækja í síðustu viku og báðu þá um að framleiða þennan nauðsynlega hlífðarbúnað eins og grímur og kápur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×