Covid-19 sérfræðingateymi Hvíta hússins segir útlit vera fyrir að útbreiðslan sé að ná einhvers konar jafnvægi í landinu, þó hápunktinum sé ekki náð. Tæplega hálf milljón Bandaríkjamanna hefur greinst með kórónuveiruna um átján þúsund látist. BBC greinir frá.
Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, tók undir þetta og sagði að allt benti til þess að faraldurinn væri að jafnast út og vöxtur hans væri ekki jafn hraður og undanfarið. Þó það væru jákvæðar blikur á lofti væri alls ekki tímabært að draga úr aðgerðum á borð við fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk.
Þá er einnig útlit fyrir að aðgerðir í New York-ríki séu að bera árangur, en ríkisstjórinn Andrew Cuomo sagði nýjustu tölur benda til þess að þeim væri að takast að fletja út kúrfuna og draga úr vextinum. Þrátt fyrir að 777 hefðu látist á fimmtudag hefðu verið mun færri sem þurftu á gjörgæslu en undanfarnar vikur.
Deborah Birx, sem er í sérfræðingateymi Hvíta hússins, sagði mikilvægt að almenningur í landinu myndi halda áfram að fylgja þeim fyrirmælum sem yfirvöld hefðu gefið út.
„Við verðum að halda áfram að gera það sem við gerðum í gær, og í síðustu viku, og vikuna þar áður því það er það sem mun koma okkur yfir erfiðasta hjallann og aftur niður.“