Tveir eru látnir og að minnsta kosti sex særðir eftir skotárás á hóp manna sem voru við tökur á tónlistarmyndbandi á bílastæði í Houston í Texas í gærkvöldi.
Lögreglustjórinn Ed Gonzalez segir margt á huldu varðandi árásina en svo virðist sem að árásarmennirnir hafi skotið á hópinn þar sem hann var við tökur á rapptónlistarmyndbandi. Hafi einhverjir árásarmanna verið á bíl, en verið er að kanna hvort einhverjir hafi verið fótgangandi.
Lögregla telur að setið hafi verið um hópinn. Tveir voru úrskurðaðir látnir á vettvangi og voru einhverjir fluttir á sjúkrahús með skotsár.
Mennirnir sem voru skotnir eru allir á þrítugsaldri.
Enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.
