Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 11. október árið 2017 veist að fertugum karlmanni fyrir utan veitingastaðinn Moe's Bar grill í Seljahverfinu í Breiðholti í Reykjavík.
Er árásarmaðurinn meinti sakaður um að hafa kastað poka með óopnuðum bjórdósum í hinn karlmanninn en pokinn lenti á vinstri öxl og hálsi hans. Í kjölfarið á hann að hafa slegið fórnarlambið í höfuðið með járnröri og eftir það slegið og kastað múrsteini í höfuð hans.
Afleiðingarnar voru þær að fórnarlambið hlaut x-laga opinn skurð í hársverði við efsta hluta ennisbeins með hvern arm um sig um sjö sentimetrar. Náði skurðurinn í gegnum höfuðleður og þurfti að sauma hann með fjórtán sporum.
Auk þess hlaut hann kúlu á hægri hluta ennisblaðs sem og utarlega á kinnbeini, innankúpublæðingu og sprungu í ennisbeini hægra megin.
Fórnarlambið krefst 3,5 milljóna króna í miskabætur vegna árásarinnar en málið verður þingfest í héraði á morgun.
Krefst 3,5 milljóna króna eftir hættulega árás með óvenjulegum vopnum
