Skoðun

Svikin?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Hversu oft höfum við ekki heyrt þá fullyrðingu að þjóðin hafi samþykkt nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs í kosningu? Oft. Svo oft að fullt af fólki er farið að trúa þessu. En þessi fullyrðing er röng og sérstakt rannsóknarefni er hvers vegna fólk sem á að vita betur, heldur þessu statt og stöðugt fram.

Spurningin sem Jóhönnustjórnin lagði fyrir kjósendur var nefnilega svona: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Allir sem eru búnir með tíu ára bekk átta sig á því að hér er ekki verið að kjósa með eða á móti tillögu stjórnlagaráðs. Ef það væri tilgangurinn þá hefði spurningin á atkvæðaseðlinum til dæmis hljóðað svona: „Vilt þú að Alþingi samþykki tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem nýja stjórnarskrá fyrir Ísland?“ eða eitthvert slíkt orðalag sem hefði með afgerandi hætti lagt tillögu stjórnlagaráðsins fram til samþykkis eða synjunar.

En það var ekki gert. Í staðinn kom hið veiklulega og hjárænulega orðalag „lagðar til grundvallar“. Opið í alla enda og ekki með nokkru móti hægt að túlka sem svo að þjóðin hafi þar með endanlega samþykkt þessar 115 tillögur stjórnlagaráðsins.

Samt er þrástagast á því að þjóðin hafi samþykkt þessar tillögur að nýrri stjórnarskrá og síðan hafi andstyggilegt fólk á Alþingi (aðallega í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki) komið í veg fyrir að vilji þjóðarinnar gengi eftir.

Væri ekki snjallt hjá einhverjum blaðamanni að senda Jóhönnu Sigurðardóttur spurningu um hvers vegna hún lagði ekki tillögur stjórnlagaráðsins fram sem nýja stjórnarskrá til samþykktar eða synjunar? Það væri fróðlegt að heyra svarið.




Skoðun

Sjá meira


×