Martin Hermannsson átti frábæran leik fyrir Alba Berlin sem vann sigur á Ratiopharm Ulm í þýsku Bundesligunni í körfubolta í dag.
Martin var stigahæstur Berlínarmanna með 22 stig í 109-89 sigrinum. Þá átti hann fjórar stoðsendingar og tók eitt frákast. Hann stal einnig tveimur boltum fyrir heimamenn.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfelik og leiddu gestirnir 55-50 í hálfleik. Gestirnir voru yfir allan þriðja leikhluta en í þeim fjórða small eitthvað í gang hjá heimamönnum og keyrðu þeir yfir gestina.
Þegar upp var staðið var sigurinn öruggur, en gefa lokatölur þó ekki rétta mynd af gangi mála.
Alba Berlin er ósigrað í deildinni og situr á toppnum.
