Þetta kom fram í máli hershöfðingjans sem stýrði aðgerðinni gegn Baghdadi í Sýrlandi. Hann ræddi við blaðamenn í gærkvöldi og sýndi hann sömuleiðis myndefni frá árásinni sjálfri.
Undirbúningur fyrir aðgerðina hafði staðið yfir lengi og var markmiðið að handsama eða fella Baghdadi. Þegar hermenn höfðu króað Baghdadi af í göngum undir girta húsið sem hann bjó í, sprengdi hann sig og tvö börn sín í loft upp. Áður höfðu fregnir borist af því að börnin hefðu verið þrjú.
McKenzie sagði að talið væri að Baghdadi hefði haldið til í Idlib, nokkra kílómetra frá landamærum Tyrklands, vegna þess mikla þrýstings sem hafi verið beitt gegn ISIS-liðum annars staðar í Sýrlandi.
Eins og áður hefur komið fram voru hermennirnir fluttir á vettvang með þyrlum og varðir af árásarþyrlum, dróna og orrustuþotum.
Sjá einnig: Hvernig hermenn Bandaríkjanna duttu í „lukkupottinn“
Þegar þyrlunum var flogið yfir svæðið var skotið á þær. Hópur manna, sem McKenzie sagði að hefðu líklega ekki verið ISIS-liðar, skaut á þyrlurnar og voru þeir felldir úr lofti. Bæði með loftárás og skotum úr árásarþyrlunum.
Hershöfðinginn segir vel hafi verið komið fram við börnin og óvopnað fólk.
Hins vegar hafi fimm aðilar ógnað hermönnunum og ekki hlýtt skipunum um að gefast upp. Þau voru felld en þar var um að ræða fjórar konur og einn mann.
Þegar aðgerðum á vettvangi var lokið var sprengjum varpað á húsið. McKenzie segir það hafa verið gert til að tryggja að húsið yrði ekki notað í áróðursskyni og það myndi ekki verða að einhvers konar tákni fyrir ISIS-liða.