Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Primera Air sem var tekið til gjaldþrotaskipta í fyrrahaust, og Valgerður Franklínsdóttir hafa sett einbýlishús sitt við Sólvallagötu 14 á sölu en eignin er skráð á Valgerði. Húsið hefur verið á söluskrá frá 6. september.
Í síðustu viku bættist við önnur glæsileg eign þegar glæsihýsi Skúla Mogensen fyrrverandi forstjóra WOW air við Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi var auglýst til sölu. Þar dugði engin venjuleg íslensk fasteignasala heldur er eignin auglýst til sölu á vefsíðunni Oceanvillaiceland.com, sem eingöngu virðist stofnuð utan um sölu hússins með erlendan markað í huga.
Arion banki er með um fjögur hundruð króna veð í húsinu.
Skotsilfur Fréttablaðsins hafði eftir heimildum sínum í ágúst að ásett verð Skúla á eignina væri um 700 milljónir króna. Fasteignamat eignarinnar er 261 milljón. Arion banki á veð í eigninni sem nemur hátt í 400 milljónum króna.
Eins og margir vita fór WOW air í þrot í mars síðastliðnum.
Dýrasta hús Íslandssögunnar
Vísir ræddi við fasteignasalann Karl Lúðvíksson og hefur hann skoðað eignirnar tvær vel og vandlega á netinu.
„Og hvað eru margir af þessum tíu að leita sér að sjö hundruð milljóna króna húsi í dag? Það er kannski ástæðan fyrir því að hann er að leita út fyrir landssteinana.“
Karl segir að ef maður skoði sambærilegar eignir eins og eignina við Sólvallagötu og skoði hvað hafi verið að seljast síðastliðið ár þá „hafa eignir verið að seljast á 200 til 300 milljónir en þær eru ekki margar. Það er alltaf bara spurning hver sé á markaðnum sem er tilbúinn að kaupa eign á þessu verðbili í dag,“ segir Karl.
Hann bætir við að það geti tekið mjög langan tíma að selja svona eignir.
„Menn óska oft eftir tilboði þar sem það er rosalega erfitt að meta hvað yfir fjögur hundruð fermetra eign er mikils virði. Það er bara verið að fiska eftir tilboðum. Er einhver tilbúinn að gera mér eitthvað tilboð sem er kannski langt umfram væntingar? Sennilega er líklegra að tilboðið sé samt sem áður undir væntingum. Ef húsið hans Skúla selst á sjö hundruð milljónir er þetta klárlega dýrasta íbúðareign Íslandssögunnar.“
Er tími fyrir þolinmæði?
Karl segist vita um tvær eignir sem seldust á síðasta ári og það á rúmlega þrjú hundruð milljónir.Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Eyrún Lind Magnúsdóttir eiginkona hans keyptu Sólvallagötu 10 í ágúst síðastliðnum. Eignin var áður í eigu feðganna Símons I. Kjærnested og sonar hans Stefán Kjærnested. Þeir hafa komist í fréttirnar fyrir leigu á húsnæði án tilskilinna leyfa. Samkvæmt heimildum Vísi seldist húsið á rúmlega 300 milljónir króna.
„Ef maður skoðar samt bara markaðinn eru ekki margir á eftir húsum fyrir mörg hundruð milljónir. Þetta selst á endanum en það er oft spurning hvað þú ert þolinmóður og hvað þú hefur efni á að bíða lengi. Miðað við umrotið hjá báðum þessum aðilum á flugmarkaði, og ef húsin eru jafnvel eitthvað veðsett, þá horfir maður auðvitað á það þegar maður er að fá tilboð í eignina.“
Eignin á Sólvallagötu þykir glæsilegt hús í Reykjavík en húsið hefur allt verið endurnýjað á síðustu árum, bæði að utan og innan, auk þess sem lóð var endurgerð og nýr bílskúr byggður.
Húsið er 540 fermetrar og var byggt árið 1928. Í því eru 7 svefnherbergi og fjögur baðherbergi.
Óskað er eftir tilboði en fasteignamat eignarinnar er 201 milljón. Í húsinu er sérútbúinn vínkjallari með föstum sérsmíðuðum innréttingum og rakatæki en hægt er að sjá myndir sem teknar eru af eigninni á fasteignavefnum á Vísi.