Erlent

Spánverjar hafna framsalsbeiðni Bandaríkjanna

Andri Eysteinsson skrifar
Hugo Carvajal var leystur úr haldi í dag.
Hugo Carvajal var leystur úr haldi í dag. EPA/EFE
Spænskir dómstólar hafa úrskurðað að Hugo Armando Carvajal, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Venesúela, verði ekki framseldur til Bandaríkjanna þar sem hans bíða ákærur vegna eiturlyfjasmygls. Þess í stað hefur honum verið sleppt úr haldi.

Carvajal var handtekinn í Madríd um miðjan apríl og hefur setið í gæsluvarðhaldi í Estremera-fangelsinu síðan. Guardian greinir frá.

Carvajal gegndi embætti leyniþjónustu venesúelska hersins í stjórnartíð Hugo Chavez, hann neyddist þó til að flýja heimalandið eftir að hafa lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó sem gerir tilkall til forsetaembættisins. Carvajal flúði í fyrstu til Dómíníkanska lýðveldisins áður en hann komst að lokum til Spánar þar sem hann var að lokum handtekinn.

Carvajal var ákærður árið 2011 fyrir að hafa unnið að flutningi 5,6 tonna af Kókaíni frá Venesúela til Mexíkó. Farmurinn átti að endingu að hafna í Bandaríkjunum og voru það ákæruyfirvöld í New York sem gáfu ákæruna út.

Verði Carvajal dæmdur í Bandaríkjunum á hann yfir höfði sér langan fangelsisdóm, allt frá 10 árum til lífstíðardóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×