Erlent

Kosningar í Ísrael: Mjótt á munum í útgönguspám

Andri Eysteinsson skrifar
Benny Gantz mætti á kjörstað í Rosh Haayin í dag.
Benny Gantz mætti á kjörstað í Rosh Haayin í dag. Getty/Amir Levy
Kjörstöðum hefur verið lokað í þingkosningunum í Ísrael. Útgönguspár þriggja ísraelskra fjölmiðla gefa til kynna að mjótt verði á munum milli Líkúd flokks forsætisráðherrans Benjamíns Netanjahú og Bláhvíts flokks Benny Gantz.

Ísraelar gengu að kjörborðinu í dag í annað sinn á aðeins fimm mánuðum en Benjamín Netanjahú forsætisráðherra boðaði til kosninga eftir að honum mistókst að mynda starfhæfa samsteypustjórn eftir kosningarnar í apríl.

Þingsæti í Knesset, ísraelska þinginu, eru 120 talsins. Spá ísraelsku sjónvarpsstöðvarinnar Keshet 12 gerir ráð fyrir því að flokkur Netanjahú hljóti 33 þingsæti á móti 34 sætum Blárra og hvítra flokksmanna Gantz.

Aðrir fjölmiðlar ytra segja að Líkúd flokkurinn hljóti á bilinu 31-33 þingsæti en flokkur Gantz fái 32 til 34 þingmenn kjörna. Flokkarnir tveir skiptu 70 þingmönnum jafnt með sér í síðustu kosningum í apríl.

Útlit er því fyrir langar og krefjandi stjórnarmyndunarviðræður í Ísrael verði niðurstöðurnar í takt við útgönguspár.


Tengdar fréttir

Þröng staða fyrir Netanjahú

Ísraelar kjósa sér nýtt þing á morgun, í annað skipti á árinu. Kannanir benda til þess að Líkúd-flokkur Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra fái álíka mörg sæti og hið bláa og hvíta bandalag miðjumanna. Stjórnarmyndun gæti því reynst erfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×