Atli var 62 ára gamall en hann fæddist 3. mars árið 1957. Hann var bæði landsliðsmaður og landsliðsþjálfari.
Hann spilaði 70 leiki fyrir íslenska landsliðið og átti um tíma leikjamet íslenska landsliðsins. Hér heima lék Atli með Val, KR og HK. Hann lék með Borussia Dortmund, Fortuna Düsseldorf, Uerdingen og TuRu Düsseldorf í Þýskalandi og Genclerbirligi í Tyrklandi.
Landslið Íslands leikur með sorgarbönd gegn Slóvakíu í kvöld vegna fráfalls Atla Eðvaldssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða og landsliðsþjálfara.
Atli féll frá í dag eftir hetjulega baráttu við krabbamein. #fyririslandpic.twitter.com/qNipg1LXMm
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) September 2, 2019
Atli þjálfaði íslenska karlalandsliðið á árunum 1999 til 2003. Hann þjálfaði HK, ÍBV, Fylki, Þrótt R., Val, Reyni S., Aftureldingu og Hamar hér heima og Kristianstad í Svíþjóð.
Atli er þó þekktastur fyrir tíma sinn sem þjálfari KR. Undir hans stjórn urðu KR-ingar Íslandsmeistarar 1999 eftir 31 árs bið. KR varð einnig bikarmeistari 1999, á 100 ára afmælisári félagsins.
Fyrrum landsliðsmaðurinn og landsliðsþjálfarinn ræddi opinskátt um veikindi sín, þar á meðal í samtali við Bylgjuna í apríl mánuði síðastliðnum.
Íslenska kvennalandsliðið mun leika með sorgarbönd í leiknum gegn Slóvakíu í kvöld vegna fráfalls Atla en Sif Atladóttir, dóttir Atla, leikur með liðinu.