Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, mun funda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Berlín í dag til að ræða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Reiknað er með því að Boris muni ítreka þá kröfu sína að sambandið falli frá svokölluðu „backstop“ ákvæði í útgöngusamningi Breta og ESB.
Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins og samflokksmaður Merkel, telur ólíklegt að Boris nái að sannfæra Merkel um að breyta afstöðu sinni en Þjóðverjar hafa stutt samkomulagið.
Umrætt ákvæði felur í sér áframhaldandi veru Bretlands í tollabandalagi ESB til að tryggja opin landamæri Írlands og Norður-Írlands. Samkomulagið felur einnig í sér að Bretar verði áfram í tollabandalaginu eftir útgöngu þangað til að gengið verður frá fríverslunarsamningi milli Bretlands og ESB.
Forsætisráðherrann hefur kallað „backstop“ fyrirkomulagið „ólýðræðislegt“ og að fjarlæga þurfi ákvæðið úr úrsagnarsamningi Bretlands og Evrópusambandsins til að samkomulag náist um útgöngu Breta. Umræddur samningur var unninn í tíð Theresa May, forvera Boris í forsætisráðuneytinu. Því samkomulagi hefur verið hafnað í þrígang af breska þinginu.
Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa þó ítrekað greint frá því að engar frekari samningaviðræður séu í boði og hafa hafnað kröfum Boris um breytingar á ákvæðinu.
Boris Johnson hefur heitið því að reyna að endursemja við ESB en einnig gefið út að Bretland muni yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október næstkomandi, þó það þýði að Bretar fari út án samnings. Slíkt gæti falið í sér mikla óvissu fyrir viðskipti og samskipti Breta við Evrópusambandsríkin.
Telur ólíklegt að Boris Johnson fái Merkel til að skipta um skoðun

Tengdar fréttir

Johnson sakar andstæðinga Brexit um samvinnu við ESB
Forsætisráðherra Bretlands sakar Evrópusambandið um óbilgirni. Á meðan segir forseti neðri deildar Bandaríkjaþings að Bretar fái ekki fríverslunarsamning eftir Brexit nema friður á Írlandi sé tryggður.

Telja matar-, eldsneytis- og lyfjaskort líklegan eftir Brexit án samnings
Í trúnaðarskýrslu breska stjórnarráðsins eru þetta taldar líklegustu afleiðingar útgöngu úr ESB án samnings, ekki þær verstu mögulegu.

Boris segir írsku baktrygginguna vera ólýðræðislega
Boris Johnson forsætisráðherra Breta segir í bréfi til Evrópusambandsins að írska baktryggingin, einn helsti ásteitingarsteinninn í útgöngusamningum Breta og ESB vegna Brexit, sé andlýðræðisleg og alls ófær. Því verði Evrópusambandið að falla frá þeirri kröfu.