Mótmælendur komu saman til að fordæma árásir grímuklæddra árásarmanna á mótmælendur á lestarstöð í síðustu viku og afskiptaleysi lögreglu.
Mótmælendur hafa sakað lögreglu um að bregðast seint og illa við árásunum en hún kom ekki á svæðið fyrr en eftir að árásarmennirnir höfðu forðað sér. Sumir mótmælendur saka jafnvel lögregluna um að leggja á ráðin með árásarmönnunum. Hún hefur neitað öllum slíkum ásökunum.
Árásirnar í síðustu viku áttu sér stað á lestarstöð í umræddu Yuen Long hverfi og sóttu mótmælendur í kjölfar þeirra um leyfi fyrir fjöldafundi í hverfinu. Það leyfi fékkst þó ekki og eru mótmælin þar því haldin í trássi við tilmæli lögreglu. Fátítt er að ekki fáist leyfi fyrir slíkum samkomum í Hong Kong en lögregla sagðist telja hættu á því að ofbeldisátök myndu brjótast þar út.
Þrátt fyrir bann lögreglu komu nokkur þúsund mótmælendur saman á svæðinu og kölluðu slagorð beint gegn lögreglunni.
Fjöldamótmæli hafa farið fram í Hong Kong frá því um miðjan júní. Upphaflega var blásið til mótmælanna vegna framsalsfrumvarps, sem hefði leyft framsal til Kína. Eftir að stjórnvöld í Hong Kong létu undan þrýstingi og drógu frumvarpið til baka hafa mótmælendur krafist lýðræðisumbóta, rannsóknar á lögregluofbeldi og afsagnar Carrie Lam, æðsta leiðtoga Hong Kong.