Skoðun

Sumarið í glasinu

Benedikt Bóas skrifar
Ég nenni ekki að tuða. Það er búið að vera svo gott veður að mér er bara slétt sama um allt þetta ástand sem hér er. Ég ætla bara að bíða eftir að hitastigið fari örlítið neðar og jafnvel fyrsta snjókornið falli áður en maður setur í tuðgírinn. Finnst eins og fleiri séu í þessum pælingum.

Nú er bara sól og sumar og dag­drykkja er í góðu lagi. Hún er bara orðin samþykkt sem er frábært enda fátt betra en að vera á góðum palli eða í góðum garði að drekka bjór eða vín og brenna aðeins á skallanum.

Í frétt þessa blaðs um daginn kom líka í ljós að sala á hvítvíni, það sem af er ári, er um 6,5 prósentum meiri en í fyrra og sala á freyðivíni og kampavíni hefur aukist um 30 prósent.  Enda hefur maður séð á samfélagsmiðlum að fólk er mikið að skála og gleðjast. Alveg sama hvaða dagur það er.

Ég hlustaði á Sprengisand í gær þar sem þriðji orkupakkinn kom upp í umræðuna. Ég skipti bara um stöð, setti eitthvert sólarlag á og fór út í garð að reyta arfa.

Oft eru svona pistlar á baksíðum blaða eftir einhverja ægilega besserwissera sem lesa þeim sem stjórna þessu landi pistilinn. Enda er það auðvelt. Flestir stjórnmálamenn og -konur eru frekar léleg í sínum störfum. En ég nenni ekki að pæla í því. Ekki núna.

Ég meira að segja fagnaði bara örlítið rigningunni í gær. Hún var góð fyrir gróðurinn. Fyrir ári bölvaði ég þessum blessuðu dropum ekkert eðlilega mikið.

Held að þessi sól hafi gert okkar þjóð bara ansi gott. Það er léttara yfir okkur sem betur fer því ferðamenn elska Ísland en þola ekki Íslendinga.

Skál fyrir sumrinu.




Skoðun

Sjá meira


×