„Oft á þessum tíma erum við að reyna að minna fólk á að koma til okkar þrátt fyrir sumarfríin,“ segir Vigdís Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Blóðbankanum, í samtali við Vísi.
Blóðbankinn sendi einnig út ákall til blóðgjafa í síðustu viku og segir Vigdís að svörunin hafi þá verið nokkuð góð. Enn sé þó greinilega áframhaldandi notkun á blóði.
„Við viljum helst að fólk komi til okkar jafnt og þétt og það er bæði hægt að gefa á Snorrabrautinni og á Glerártorgi ef fólk er á ferðalagi fyrir norðan,“ segir Vigdís og bendir á að upplýsingar um opnunartíma má nálgast á vef Blóðbankans.
Í dag sé markmiðið að fá inn 100 blóðgjafa og segir Vigdís að það markmið ætti að nást þar sem 45 manns hafa gefið blóð í dag.