Erlent

Netanja­hú varar við írönsku kjarn­orku­sprengju­regni í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Netanjahú gremst það sem hann kallar friðkaup Evrópu við Íran.
Netanjahú gremst það sem hann kallar friðkaup Evrópu við Íran. Vísir/EPA
Tilraunir Evrópuríkja til að halda lífi í kjarnorkusamningnum við Íran fer fyrir brjóstið á Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem líkir þeim við friðkaup við Þýskaland nasismans í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar. Segir hann að Evrópusambandið átti sig mögulega ekki á hættunni sem því stafi af Íran fyrr en „íranskar kjarnorkusprengjur falla á evrópska fold“.

Kjarnorkusamningurinn sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015 er við það að fara út um þúfur. Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr samningum í fyrra og lagði viðskiptaþvinganir aftur á Íran. Stjórnvöld í Teheran hafa síðan sagst ætla að auðga úran meira en heimilt er samkvæmt samningum til þess að þrýsta á Evrópuríki að halda lífi í samningnum og tryggja viðskipti við Íran.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja hafa fundað um örlög kjarnorkusamningsins í Brussel. Haft var eftir þeim í morgun að brot Írana á samningnum til þessa væru ekki veruleg.

Netanjahú er ósáttur við afstöðu Evrópusambandsins í garð Írans. Í myndbandi sem hann sendi frá sér sagði hann hana minna sig á friðkaup Evrópu á 4. áratugnum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Líka þá var einhver með höfuðið grafið í sandinum og sá ekki hættuna sem steðjaði að. Svo virðist sem að það séu einhverjir í Evrópu sem munu ekki vakna fyrr en írönsk kjarnorkuskeyti falla á evrópska fold og þá verður það að sjálfsögðu of seint,“ sagði ísraelski forsætisráðherrann.

Ísraelsk stjórnvöld hafa frá upphafi fundið kjarnorkusamningnum flest til foráttu. Íranir og Ísraelar hafa enda lengið elda grátt silfur saman. Stjórnvöld í Teheran viðurkenna ekki tilverurétt Ísraels og hafa hótað ríkinu gereyðingu.


Tengdar fréttir

Samkomulag við Íran er hvergi nærri í sjónmáli

Bretum, Frökkum og Þjóðverjum gengur erfiðlega að komast að samkomulagi við stjórnvöld í Íran um að halda áfram að framfylgja JCPOA-kjarnorkusamningnum sem ríkin fjögur, auk Bandaríkjanna, Kína, Rússlands og Evrópusambandsins, gerðu árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×