Innlent

Konur verða í fyrsta sinn í meirihluta sem sendiherrar

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Bergdís Ellertsdóttir, næsti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, í allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Bergdís Ellertsdóttir, næsti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, í allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna. Utanríkisráðuneytið
Konur verða í fyrsta sinn fleiri en karlar í stöðum sendiherra Íslands á erlendri grundu frá og með 1. ágúst. Konur verða þá níu af sautján sendiherrum, sé aðeins litið til tvíhliða sendiráða. Þær verða aftur á móti aðeins 9 af 26 forstöðumönnum allra sendiskrifstofa Íslands. Þótt það sé ekki nema rúmur þriðjungur verður það hæsta hlutfall kvenna sem gegnt hefur forstöðuhlutverki sendiskrifstofa í sögu íslenskrar utanríkisþjónustu samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Sendiráð Íslands í Bandaríkjunum verður án sendiherra í júlí en Bergdís Ellertsdóttir tekur við af Geir H. Haarde þann fyrsta ágúst. Geir tók við starfi sem fulltrúi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum í dag. Bergdís gegndi áður stöðu fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu Þjóðunum.

Um er að ræða reglubundna flutninga innan utanríkisþjónustunnar en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur í ráðherratíð sinni ekki skipað neina nýja sendiherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×