Innlent

Sárnaði þegar hún sá starfsauglýsingar Landspítalans: "Mér bara hreinlega blöskraði“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Kona, sem Landspítalinn notaði í starfsauglýsingu fyrir starf í eldhúsi, segist sár yfir því hvernig spítalinn dragi upp neikvæða staðalímynd af konum, dökkum á hörund, í starfsauglýsingum sem birtust í dag.  Þá hafi hún ekki verið beðin um leyfi fyrir myndbirtingunni. Verkefnastjóri félags kvenna af erlendum uppruna blöskrar auglýsingarnar.

Í morgun birti Landspítalinn tvær starfsauglýsingar á Facebook. Annars vegar var leitað eftir einstaklingi til að starfa í eldhúsi og hins vegar eftir hjúkrunarfræðingum. Myndirnar sem fylgdu auglýsingunum hafa verið gagnrýndar af samtökum kvenna af erlendum uppruna og eru sagðar draga upp neikvæða staðalímynd af konum, dökkum á hörund.

„Mér bara hreinlega blöskraði. Eldhús er bara fyrir konur með dökka hörund með hárnet og svo næsta mynd sem blasir við er falleg hvít íslensk kona að njóta sín,“ segir Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður og verkefnastjóri Samtaka kvenna af erlendum uppruna.

Innocentia F. Friðgeirsdóttir, er á myndinni í auglýsingunni fyrir eldhús starfsmanna. Hún hefur starfað á spítalanum í 14 ár og segist hafa sárnað þegar hún sá auglýsingarnar.

Auglýsingarnar sendi röng skilaboð út í samfélagið.  

„Ef fólk sér þessa mynd gæti það hugsað kannski, þetta starf er ekki fyrir mig,“ segir Innocentia og bætir við að hún hafi ekki verið beðin um leyfi fyrir myndbirtingunni. „Það hefði verið gott ef það hefði verið haft samband við mig. Ég er manneskja alveg eins og hinir bara,“ segir Innocentia.

Nicole og Innocentia óskuðu eftir því að myndin yrði tekin niður og var það var gert síðar í dag.

„Ég ætla að trúa að þetta hafi ekki verið viljandi gert. En stofnun eins og Landspítalinn á að vera í fararbroddi alltaf og huga vel að því hvaða staðalímyndir þau eru að ýta undir því staðalímyndir eru fyrstu skrefið í átt að fordómum,“ segir Nichole.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×