Í fréttum Stöðvar 2 í vikunni kom fram að nærri helmingur fatlaðra barna og ungmenna, sem býr í heimahúsum í Hveragerði, fær ekki viðeigandi þjónustu hjá bæjarfélaginu og sex af þeim tólf sem fá þjónustu segja hana ekki viðunandi. Þetta kom fram í úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Formaður Öryrkjabandalagsins telur skýrsluna gefa Hveragerði falleinkunn.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, sagði í fréttum okkar að hún væri ekki sammála að almenn óánægja væri með þjónustuna, úttektin væri ráðgefandi en ekki falleinkunn og vísaði gagnrýninni til félagsmálaráðherra sem þyrfti að skýra rammann utan um nýja löggjöf í þjónustu við fatlaða, svo sveitarfélögin viti hvernig þeim beri að framfylgja þeim.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, bendir á að sveitarfélögin ættu að þekkja hina nýju löggjöf.
„Ég held það sé í fyrsta lagi mikilvægt að hafa það hugfast að ný lög sem samþykkt voru um bætta þjónustu við fatlað fólk höfðu verið lengi í vinnslu og sveitarfélögin komu að þeirri vinnu. Þau kveða á um breytta hugsun hjá sveitarfélögunum og frumkvæði sveitarfélaga þarf að verða meira.“
Ásmundur Einar segir mikilvægt að sveitarfélög komi af krafti inn í nýja löggjöf og fylgi henni eins og Alþingi samþykkti hana. Úttektin sé góð áminning en ekki áfellisdómur, þar sé hann sammála bæjarstjóra Hveragerðisbæjar. Hann hafi skilning á því að það taki tíma að innleiða breytta hugsun og ráðuneytið hafi leitast eftir góðu samstarfi við sveitarfélögin.
„Það er samt sem áður mikilvægt að sveitarfélögin skynji það að það er breytt lagaumgjörð og þau þurfa að breyta sínu verklagi og sinni hugsun þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
