Hugmyndin að myndinni kviknaði árið 2013 og sögðu þeir löngu kominn tíma til að skrásetja magnaða sögu Þjóðhátíðar. Upphaflega var ætlunin að gera einni stakri hátíð skil en fljótlega kom á daginn að ein hátíð myndi ekki duga, því hafa þeir Skapti og Sighvatur unnið að myndinni síðustu fimm árin.
„Þjóðhátíð í Eyjum hefur vaxið undanfarin ár og hefur skapast umræða meðal Eyjamanna um þolmörk hátíðarinnar. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur flutningsgeta stóraukist. Í myndinni er fjallað um þróun hátíðarinnar og ljósi varpað á hversu miklu máli hún skiptir fyrir verslun og þjónustu í Eyjum,“ segir Sighvatur.
Undanfarin ár hefur mikil umræða verið hér á landi um öryggisþátt Þjóðhátíðar og annarra útihátíða. Í myndinni verður fjallað sérstaklega um hversu mikil áhersla er lögð á gæslu og öryggi hátíðargesta. Þjóðhátíðarnefnd ÍBV vinnur að hátíðinni árið um kring og er mikill metnaður lagður í dagskrá og alla umgjörð.
Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri Fjallabræðra og höfundur þjóðhátíðarlaganna Þar sem hjartað slær frá árinu 2012 og Ástin á sér stað frá 2016, sér um tónlistina í myndinni.
„Þegar Sighvatur og Skapti Örn báðu mig um að taka að mér tónlistina í myndinni þá var svarið einfalt og svarið var já. Eftir 10 ár í Dalnum fannst mér ég vera tilbúinn í að skapa stemningu fyrir þessa mynd sem lýsir því hvernig mér líður þegar ég geng um Herjólfsdal,“ segir Halldór Gunnar.
Fólkið í Dalnum - heimildarmynd um Þjóðhátíð from Sighvatur Jónsson on Vimeo.