Ráðist var á meðlim tökuliðs nýjustu kvikmyndar Anne Hathaway og hann stunginn í hálsinn í myndveri Warner Bros í Hertfordskíri á Englandi í dag.
Í frétt Variety er haft eftir lögreglu að fórnarlambið hafi verið flutt á sjúkrahús og árásarmaðurinn handtekinn. Talið er að mennirnir þekkist en rannsókn málsins heldur áfram.
Umrædd kvikmynd ber heitið The Witches, eða Nornirnar upp á íslensku, og er endurgerð af hinni sígildu kvikmynd um óhugnanlegar nornir, byggðri á samnefndri skáldsögu eftir Roald Dahl. Hathaway leikur aðalnornina í myndinni en Octavia Spencer og Chris Rock fara þar einnig með hlutverk.
Ekki er vitað hvort einhver úr leikaraliðinu varð vitni að árásinni en í frétt Daily Mail segir að slagsmál hafi brotist út á milli mannanna, sem báðir hafi starfað við myndina. Um hundrað meðlimir tökuliðsins hafi orðið vitni að slagsmálunum og fregnir af málinu kvisast út áður en lögreglu bar að garði.
