Xi Jinping forseti Kína kynnti viðamikla áætlun og stefnumótun kínverskra stjórnvalda varðandi tengingar og samskipti Kína við umheiminn með svokallaðri Belti og braut áætlun árið 2013.
Í sinni einföldustu mynd gengur áætlunin út á að tengja Kína með vegum og járnbrautum á landi og með höfnum við Evrópu. Kínverjar bjóða fram fjármagn og samstarf til uppbyggingar mannvirkja og er áætlunin til mjög langs tíma.
Mia Bennett aðstoðarprófessor í landafræði við Háskólann í Hong Kong tók þátt í sérstakri málstofu um málið á Hringborði norðurslóða, Arctic Circle, í Shanghai fyrr í þessum mánuði.
„Þetta fjallar í stórum dráttum um áætlun Kínaum að bæta tengingar á sviði verslunar og flutningastarfsemi milli Asíu og Evrópu. Kína hleypti þessari áætlun af stokkum árið 2013. Nú þegar hafa a.m.k. 17 ríki ákveðið að taka þátt í henni. Málið er því komið vel á skrið og verkefni um lagningu járnbrauta og hafnargerðar er farið af stað.“
Þá nær áætlunin einnig til Asíu og Afríku. Bennett telur kínversk stjórnvöld viljandi hafa áætlunina opna í annan endann og því erfitt að segja til um hvenær henni ljúki. Hún geti allt eins náð til suður Ameríku og jafnvel norður Ameríku í framtíðinni. Nokkurrar tortryggni hefur gætt meðal leiðtoga annarra ríkja vegna áætlunarinnar og þá sérstaklega hjá bandarískum stjórnvöldum.
„Fólk á rétt á því að hafa efasemdir og kannski áhyggjur af slíku. Kína er risastórt land, stærsta efnahagsheild heimsins og öll starfsemi sem á sér stað, t.d. á Norðurheimskautssvæðinu fjarri landamærum Kína mun hafa ytri áhrif þar. Ég veit ekki hvort Kína sé með annarlegri markmið á prjónunum frekar en Bandaríkin en þau að vinna í þágu eigin lands þegar leitað er nýrra auðlinda og markaða yfir landamæri og á erlendri grundu. Kínverjar geta líklega ekki gert kröfu til landsvæða á Norðurheimskautinu en hafa jú viðskiptahagsmuna að gæta og þeir vilja tryggja þá. Við eigum að koma fram við Kínverja af ákveðni en samt ekki á ótilhlýðilegan hátt,“ segir Mia Bennett.