Klukkan var að verða hálf átta í gærmorgun þegar Ólafur vísaði til Facebook-færslu sem Silja Dögg, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði skrifað um að lagalega fyrirvara væri að finna í frumvörpum Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, um innleiðingu þriðja orkupakkans í síðustu viku.
Ólafur nefndi Silju Dögg aftur á móti ekki á nafn heldur nefndi hana aðeins „háttvirtan þingmann suður með sjó“. Silja Dögg kemur af Suðurnesum.
„Það er þessi skýring háttvirts þingmanns suður með sjó sem í eilítið torræðum og myrkum texta verður að viðurkennast á samskiptamiðli sem margir þekkja lýsir að því er virðist mikilli sannfæringu hverjir þessir lagalegu fyrirvarar eru. Ég geri líka ráð fyrir því að fyrir okkur hina sem erum kannski ekki jafn langt komnir í lögfræðinni og háttvirtur þingmaður suður með sjó að þá sé þetta erfitt fyrir okkur að átta okkur á þessu og skilja til hlýtar hvert háttvirtur þingmaður er að fara,“ sagði Ólafur í pontu.
Fyrir þetta skammaði Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, þá rámur eftir málþóf miðflokksmanna sem hafði staðið yfir alla nóttina, Ólaf.
„Forseti gerir ráð fyrir að sá þingmaður sem háttvirtur þingmaður vísaði til hafi nafn, hafi nafn. Ef vísað er þannig til þingmanna að ætla má að þekkja megi hverjir þeir eru er lágmarkskurteisi að ávarpa þá með fullu nafni eins og vera ber samkvæmt þingsköpum, þó menn kunni að hafa gaman af þessu,“ sagði Steingrímur.
Vísaði Steingrímur þar að líkindum til þess að Ólafur var einn sex þingmanna sem heyrðust á upptöku sem gerð var á barnum Klaustri í vetur. Þar heyrðust þáverandi þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa uppi óviðeigandi orð um aðra þingmenn, ekki síst þingkonur. Ólafur gekk í Miðflokkinn eftir að hann var rekinn úr þingflokki Flokks fólksins ásamt Karli Gauta Hjaltasyni vegna ummæla sem höfð voru uppi á Klaustri.
„Þora þessir kjörkuðu karlmenn ekki að nefna nafnið mitt án þess að forseti þingsins segi þeim að gera það?“ spurði hún í færslunni.
Málþóf Miðflokksins um þriðja orkupakkann hefur nú staðið yfir í um áttatíu klukkustundir. Þinfundi sem hófst klukkan 15:30 á föstudag var ekki slitið fyrr en rétt fyrir klukkan hálf ellefu fyrir hádegi í gær.