Meginniðurstaða skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi er sú að áhætta vegna helstu brotaflokka sé enn vaxandi. Tvö ár eru síðan sambærileg skýrsla var unnin af embættinu og segir Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn að þá hafi staðan verið svört.
„Síðan þá hefur ástandið farið versnandi þannig að þessi skýrsla en í rauninni svartari en sú sem kom út árið 2017,“ segir Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Áhættustigin sem unnið er eftir eru fjögur, frá því að vera lítil áhætta til gífurlegrar áhættu. Brotaflokkarnir sem teknir voru til skoðunar var innflutningur, framleiðsla og sala fíkniefna, Mansal, vinnumarkaðsbrot, peningaþvætti og farandbrotahópar.
Allir fimm brotaflokkarnir sem fjallað er um í skýrslunni hafna í rauðu eða svörtu þrepi í áhættulíkani sem Ríkislögreglustjóri vinnur eftir.

Mikill niðurskurður hefur verið í löggæslu frá hruni og hefur lögreglumönnum fækkað mikið.
„Það er staðreynd að lögreglan er veik. Frumkvæðisgeta lögreglunnar er í rauninni mjög lítil eins og staðan er í dag en svo er það spurningin hvers konar lögreglu viljum við hafa hér. Viljum við fá lögreglu sem er svona viðbragðslögregla eða viljum við hafa svona lögreglu með frumkvæðisgetu sem getur tekið á svona málum,“ segir Ásgeir.
Dómsmálaráðherra og forsætisráðherra hafa þegar brugðist við niðurstöðum skýrslunnar og fyrirsjáanlegri þróun þessara mála með því að skipa sérstakan samráðshóp fjögurra ráðuneyta sem skilgreina á nauðsynlegar aðgerðir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, segir alla aðila sammála því að frekara fjármagn þurfi til löggæslumála.

„Þessi skýrsla er ekki gerð í þeim tilgangi til að gera kröfu um aukið fé heldur eingöngu til að upplýsa stjórnvöld og almenning um stöðuna,“ segir Ásgeir. Sjáið þið fram á að ef ekkert verður að gert hvernig þróunin geti orðið?
„Við segjum það í skýrslunni að verði ekkert að gert muni ástandi versna,“ segir Ásgeir.