Óhugnaleg uppákoma varð við hús Parks Frazier, aðstoðarþjálfara liðs Indianapolis Colts í NFL-deildinni, er átta drengir létu skotunum rigna á hús þjálfarans.
Vitni segja að þetta hafi allt verið ungir menn sem hafi komið á þremur bílum. Þeir hafi hoppað út úr bílunum og hafið skothríðina tafarlaust.
Bakdyrunum var síðan sparkað upp og einhverjir fóru inn í hús og skutu þar allt í tætlur. Sem betur fer var húsið mannlaust en uppákoman engu að síður mjög óhugnaleg fyrir Frazier og fjölskyldu.
Lögreglan leitar nú drengjanna en einn þeirra missti símann sinn inn í húsinu og það ætti að gefa lögreglunni vísbendingar um hverjir hafi verið að verki.
