Lögreglan á Vesturlandi vekur athygli á æfingunni á Facebook-síðu embættisins. Þar segir að eitt af því sem lögreglan verði að fást við í sinum störfum sé að mæta einstaklingum sem beiti eða hóti að beita skotvopnum.
Því hafi verið ákveðið að halda sameiginlega æfingu sérsveitarinnar og lögreglunnar á Akranesi þar sem verkefnið var að fást við vopnaða einstaklinga þar sem hætta var á að um gíslatöku væri að ræða.
Nemendur og kennarar í lögreglunáminu tóku að sér að leika vopnaða mótaðila og gísla, bráðatæknar frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins sem starfa með sérsveitinni tóku einnig þátt í æfingunni ásamt því að björgunarsveitarmenn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu mættu með stjórnstöðvarbílinn sem gengur undir nafninu „Björninn“ og var hann notaður sem vettvangsstjórnstöð lögreglunnar.
Á Facebook-síðu lögreglunnar segir að æfingin hafi gengið mjög vel og öll æfingamarkmið náðust.
„Vonum að þeim vegfarendum sem tóku eftir æfingunni hafi ekki brugðið, en sérstök æfingavopn eru notuð á svona æfingum.“