Erlent

Tveir nemar fá milljarða sektir vegna skógarelds

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um 1000 hektarar lands urðu eldinum að bráð.
Um 1000 hektarar lands urðu eldinum að bráð. Getty/Alfonso Di Vincenzo
Tveir ítalskir nemar þurfa að greiða ítalska ríkinu hver um sig 13,5 milljónir evra vegna skógarelds sem þeir voru fundir sekir um að hafa valdið.

Um þúsund hektarar skógarlands brunnu í skógareldinum sem kviknaði 30. desember síðastliðinn. Eldsupptök voru rakin til grills sem nemarnir tveir notuðu við sumarhús afa annars nemans, en mjög þurrt var á svæðinu er eldurinn braust út.

Sektirnar, nærri tveir milljarðar króna á mann, var reiknuð með hjálp reiknilíkans sem embættismenn notuðust við til að meta tjónið sem varð af völdum skógareldsins. Slökkvilið barðist við eldinn í nokkra daga áður en tókst að slökkva hann.

BBC hefur eftir nemunum tveimur úr ítölskum fjölmiðlum að þeir telji sig vera fórnarlömb málsins. Þeim þyki mjög leitt að hafa átt mögulega þátt í eldsupptökum en ekki væri hægt að kenna þeim einum um, ekki væri hægt að skýra eldsupptök með fullnægjandi hætti.

Segjast þeir hafa reynt hvað þeir gátu til að hefta útbreiðslu eldsins og að þeir hafi hringt á slökkvilið um leið og þeir hafi orðið hans varir. Eru þeir aðeins 22 ára gamlir.

Ballið er þó ekki búið fyrir nemana tvo en í frétt BBC segir að mögulegt sé að eigendur landsvæðis og eigna sem skemmdust í eldinum muni krefjast skaðabóta frá nemunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×