Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir sjaldgæft að eftirlitsnefndin þurfi að óska eftir upplýsingum um einstök mál frá sveitarfélögum.

Í úttekt innri endurskoðunar frá 2015 um Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem hafði umsjón með framkvæmdunum á Nauthólsvegi 100, voru settar fram ábendingar um atriði sem mættu betur fara. Í Braggaskýrslunni svokölluðu, sem kom út rétt fyrir jól, kom fram að ekki hefðu verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna frá 2015.
Vill því nefndin fá að vita hver eftirfylgnin hafi verið af hálfu innri endurskoðunar, hvort ábendingarnar hafi borist endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendum borgarinnar. Í bréfi sem sent var til borgarinnar í síðustu viku er einnig óskað eftir upplýsingum um reglur sem heimila tilfærslu fjárheimilda milli verkefna og um gerð viðauka við fjárhagsáætlun.
Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar var með umsjón með Braggaverkefninu við Nauthólsveg 100 sem er búið að kosta meira en 400 milljónir. Ákveðið var í kjölfarið að leggja skrifstofuna niður þann 1. júní næstkomandi.
Enn er eftir að klára úrbætur varðandi langstærstan hluta ábendinganna. „Á þremur árum var bætt úr sex af þrjátíu,“ segir Eyþór. „Kerfið er orðið svo flókið að ekki er farið eftir ábendingum sem kerfið sjálft bendir á og boðleiðirnar eru orðnar svo langar að stór mál hreinlega gleymast.“